Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 9. mars 2010

Öfgar eru ekki af því góða

Við könnumst flest við ráðleggingar um aukna neyslu á grænmeti, ávöxtum og heilkorni, á fiski og mögrum mjólkurvörum, á trefjum, andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum. Og við höfum öll heyrt varað við hvítum sykri, hvítu hveiti og mettaðri fitu.

Það er mjög gott að hafa þessi ráð í huga þegar maður verslar eða velur sér á diskinn, en svona ráðleggingar geta nánast orðið að trúarbrögðum. Það er ekki víst við uppskerum bætta heilsu og líðan ef við hættum að borða allan mat sem inniheldur hvítan sykur eða hvítt hveiti, og borðum grænmeti, ávexti og heilkorn í hvert mál.

Matur úr jurtaríkinu eins og heilkorn og ýmist grænmeti er þungmelt, og inniheldur mikið af trefjum. Þó hæfilegt magn trefja bæti meltinguna, getur orðið of mikið af því góða. Ef okkur líður ekki vel af þessum mat getur verið gott að borða hæfilega mikið af öðru með, þ.e. hæfilega blöndu af losandi og stemmandi fæðutegundum.

Það mikilvægasta er ætíð að hlusta á líkamann og finna hvernig manni líður af matnum, að hlusta á seddu- og svengdartilfinninguna, að taka mark á því ef maður fær meltingartruflanir af ákveðnum matvælum, verður uppþembdur, eða liðir í líkamanum stirðna eða bólgna. Hreyfing skiptir ekki minna máli fyrir heilsu og líðan okkar en mataræðið. Reynum að finna hvaða mataræði og hvaða líkamsrækt gefur okkur vellíðan og orku til athafna daglegs lífs, gleði til að sinna vinnu og áhugamálum, og úthald til að mæta hvaða áskorunum sem er.