Þessi pistill birtist fyrst á heilraedi.blogspot.com 8. apríl 2010

Bragðlaukarnir

Að borða vekur vellíðan, og ákveðin matvæli vekja meiri vellíðan en önnur. Á tungu okkar, í munnholinu og í nefinu eru frumur sem skynja bragð og lykt. Þessar frumur eru beintengdar vellíðunarstöðvum í heilanum. Ef við mötum þessar skynfrumur um lengri tíma á miklum sykri og fitubrasi, á skyndibita, sælgæti og gosdrykkjum með gervibragðefnum, þá hætta þær að bregðast almennilega við alvöru mat með alvöru bragði. Okkur fer að finnast lítið í þann mat varið, sem kemur beint úr náttúrunni, en förum að heimta meira og meira af sykri, fitubrasi og unnum matvælum.

Góðu fréttirnar eru þær, að bragðlaukarnir á tungu og í munnholi, og skynfrumurnar í nefinu, lifa ekki nema í þrjár vikur. Þá deyja þær og nýjar frumur koma í staðinn. Og nýjum frumum er hægt að kenna að meta nýtt bragð, nýja lykt. Þess vegna getur tímabundið fráhald frá sykri, fitubrasi eða sælgæti breytt smekk okkar varanlega. Og bara með því einu að smakka möndlur, gulrætur, epli, hnetur, döðlur og smakka það aftur, og aftur, og nokkrum sinnum í viðbót, förum við hægt og rólega að kunna að meta náttúrulegt bragð þeirra og ilm.

Heimild: Linda Bacon, PhD. Health at every size. The surprising truth about your weight. Benbella books inc. Dallas TX. 2008.